Í haust tók ég eftir því að stæðiskortið mitt var útrunnið og eftir mikla frestunaráráttu og tilheyrandi hugarangur ákvað ég að drífa í að endurnýja það ... staðfesta að skerðing mín væri ekki útrunninn, ég væri hvorki búin að hækka mikið né standa upp. Ég hringdi í Tryggingastofnun til að fá upplýsingar um hvernig ég bæri mig að og benti hún mér á að nálgast stæðiskortið hjá Ríkislögreglustjóra, þar myndi ég fá það afhent strax.
Þegar ég kom þangað tók á móti mér mjög elskuleg ung kona og útlistaði ég fyrir henni að kortið væri útrunnið og ég væri komin til að fá nýtt. Þá spurði hún mig hvort ég væri með læknisvottorðið og undrandi bað ég hana að endurtaka þá spurningu, sem hún gerði. Það var ekki fyrr en hún sagði hana í annað sinn að ég áttaði mig á að ég væri semsagt ekki farin að heyra raddir. Ég spurði hvort það væri ekki bara upplýsingar í tölvunni frá síðustu endurnýjun en hún neitaði því. Þá spurði ég hana hvort hún væri að grínast og hvort hún sæi mig ekki örugglega þar sem það verður seint sagt um mig að ég sé með dulda skerðingu ... :) Hún sannfærði mig um að þetta væri ekki brandari heldur reglur og á milli okkar fóru smá rökræður um asnaleika þeirra - þó svo að ég gerði mér grein fyrir að asnaleikinn væri ekki hennar sköpunarverk. Að því loknu og þegar ég var búin að biðja hana að skila kveðju til reglumeistarans sagði hún mér að ég yrði að koma með útprentaða mynd af sjálfri mér því þær klipptu og límdu kortið saman.
Ég gekk ekki frá þessum málum fyrr en á föstudaginn og hef því verið kortalaus í nokkra mánuði. Satt að segja hafði ég ekki lyst á kortinu .. og hef það ekki enn.
Kannski var mér endanlega ofboðið þar sem fyrr þessa sömu viku bauðst mér ekki sérstofa til þess að taka próf (þarf að tala upphátt við aðstoðarkonu sem skrifar) því ég hafði ekki ,,beðið um aðstoð með því að skrifa undir sérþarfasamning" námsráðgjafar Háskóla Íslands - auðvitað þurfti staðfestingu, ég gæti hafa fengið mér göngutúr daginn eftir síðasta prófið á vorönninni, sem ég tók einmitt í sérstofu í sama Háskóla. Ég tók prófið, sem gilti 50% af heildareinkunn í faginu, frammi á gangi.
Allavega - nú liggur fallegt nýklippt og plastað stæðiskort á mælaborðinu og gildir það til ársins 2014, þá þarf ég að endurnýja rétt minn og staðfesta þá staðreynd með læknisvottorði að ég er ennþá ég.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 1015
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
Tenglar
Ég skoða...
- Háskóli Íslands
- Einstök börn
- Forréttindi ehf.
- Notendastýrð persónuleg aðstoð
- Osteogenesis Imperfecta foundation
- Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum
- Sjónarhóll ráðgjafamiðstöð
- Hjallastefnan
- Dale Carnegie
- ABC hjálparstarf
- Rannsóknarstofa um skóla án aðgreiningar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.