Að byggja eða brjóta upp staðalímyndir - Hvort er það?

Ég var með fyrirlestur í dag í sálfræði í FG og fjallaði m.a. um staðalímyndir sem er að verða megin uppistaða fyrirlestra minna fyrir ungt fólk, að auki viðhorfinu sem er mitt helsta áhugamál öllum stundum. Hópurinn var skemmtilegur og tilbúinn í umræður sem spunnust í allar áttir. Ég velti oft fyrir mér birtingarmynd fólks í auglýsingum en þær eru oft mjög klisjukenndar, photoshoppaðar og viðgerðalegar - en við horfum fram hjá því og höldum að fyrirsæturnar séu actually svona .... já, fullkomnar! (iiiúúú, ekki rétta orðið). Við sjáum aldrei fatlaðar konur í sjampó auglýsingum, fatlaða karlmenn í jeppa auglýsingum né fötluð börn í fata/bleiu/leikfangaauglýsingum. Það er í raun furðulegt því fatlaðar konur, ég til að mynda, þvo á sér hárið (með sjampói), fatlaðir karlmenn eiga jeppa og fötluð börn ganga í fötum, nota bleiur og leika sér eins og önnur börn.

Við ræddum þetta á fyrirlestrinum og þá kom einn nemandinn með þá pælingu að ef fötluð kona auglýsti sjampó eða fatlað barn auglýsti föt myndi fólk fatla vöruna, þ.e. að hún yrði þekkt sem ,,fatlaða sjampóið eða peysan." Ég tek það fram að þetta var ekki hennar skoðun en hún velti því fyrir sér hvort auglýsingaframleiðendur hugsuðu svo skammt að hræðast slíkt. Fannst pælingin fyndin en góð.

Þar sem ég get verið mjög ,,out of date" þá hef ég verið að horfa fyrst núna á Sex and the city seríurnar. Mér finnst mjög athyglisvert hvernig þættirnir, að sumu leiti, dissa staðla. Samantha skiptir um gæja eins og nærbuxur og talar hiklaust um kynlífsreynslu sína og langanir... alveg sama hvar hún er. Slíkt er alls ekki viðurkennt af samfélögum þegar kemur að konum og er í raun talið afrbrigðilegt þrátt fyrir að karlmenn hafi ákveðið leyfi til þess, amk. virðast þeir ekki fá jafn harðan dóm fyrir vikið. Ég er alveg ein af þessum dómhörðu og finnst Samantha óþolandi og óviðeigandi á allan hátt - samt hriKalega fyndin. Annað dæmi er Miranda, en hún á að vera þessi dæmigerða sjálfstæða kona sem kemur ekki neinu fyrir í dagbókinni nema vinnunni og kokteil hittingum með vinkonum sínum. Hún verður svo ólétt og fer í gegnum ákveðið dilemna yfir því, hugleiðir alvarlega fóstureyðingu og finnst móðurhlutverkið óspennandi á allan hátt. Hún lætur þó til leiðast og þó svo að hún sé ekki með umtalaða innbyggða móðureðli og finnist óléttan ekkert sjarmerandi þá tekst henni að læra á nýtt hlutverk sitt, þykja vænt um það en þó vera opin um vankanta þess. Þættirnir koma einnig inn á birtingarmynd fólks með geðraskanir, kvenna sem ekki geta líffræðilega orðið barnshafandi, ættleiðingar, innri og ytri fegurð, samkynhneigð og háværar ástarklisjureglur sem eiga sér fátæklega stoð í raunveruleikanum.

Að sjálfsögðu er um afþreyingarefni að ræða, amerískt happy ending og allt flæðandi í peningum hvort sem þú ert óvirkur starfsmaður í almannatengslum, blaðamaður sem skrifa free lance eða manneskja sem ekki vinnur eins og birtist í mörgum þáttum. Hins vegar finnst mér vera brotið upp munstur sem hefur verið ríkjandi í flestum þáttaseríum; konur sem opna augun á morgnanna stífmeikaðar, hamingjusamar mæður sem ,,eru bara með þetta í sér", karlmenn sem halda fram hjá konunum sínum en ekki öfugt og lífshlaup sem er svo slétt og fellt að manni langar að gubba. Þarna sjáum við allavega hársrótina, vörtuna og baugun hennar Carrie, hlaupabóluna og ekki-hvítu tennurnar hennar Miröndu, rauðvínsslettan brúðarkjólinn hennar Charlotte og hrukkurnar hennar Samönthu ;)

Ég held að nákvæmlega svona sé mikilvægt að vinna í öllum fjölmiðlum, hvort sem það er í þátta- eða kvikmyndagerð, auglýsingum, blaðagreinum eða bókaskrifum. Meðvitundin um skilaboðin sem við erum að gefa getur haft gríðarlega mikið að segja í viðhorfamyndun fólks. Auðvitað eru það fyrst og fremst við neytendur efnisins sem berum ábyrgð á því að flokka skilaboðin eftir því hvort við ætlum að láta þau hafa áhrif á okkur eða ekki. Börn og unglingar eru þó oft ofurviðkvæm fyrir mötun fjölmiðla og það getur ekki bara verið á ábyrgð foreldra að passa upp á það, þó það sé gríðarlega mikil ábyrgð á þeim. Fjölmiðlar hafa svo gríðarlega mikið vald sem þeir þurfa að kunna að fara með og nota sem tæki til þess að brjóta upp staðalmyndir en ekki byggja þær upp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Freyja Haraldsdóttir

Nákvæmlega - hún leit raunverulega illa út ... og mér fannst það flott

Freyja Haraldsdóttir, 1.2.2009 kl. 03:07

2 identicon

Mig langar að leggja hér aðeins til í þetta með af hverju fatlað fólk auglýsir ekki t.d. sjampó.....

ég held það sé vegna þess ef auglýsendur gerðu það myndu fordómar samfélagsins koma fram, ekki að sjampóið myndi "fatlast" heldur að sá "fatlaði" væri misnotaður í þágu auglýsinga.

Þetta er ein birtingarmynd þess sem samfélagið leggur upp með, "fatlaður" má ekki reka sig á eins og hinir, fatlaður má ekki.......... Freyja ég var á fyrirlestri hjá þér, og móðurfulltrúarnir sem þú talaðir um eru í raun samfélagið.

Veltið þessu fyrir ykkur!!!!!!!!!!!!!!

Annars frábært að upplifa þig og sjá hvað þú ert sátt við að vera akkúrat þú og enginn önnu. :) Það ættu fleiri að gera

Þorbjörg (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 22:46

3 Smámynd: Freyja Haraldsdóttir

Sæl Þorbjörg

Takk fyrir innlegg þitt og falleg orð

Varðandi auglýsingabransann þá held ég að þetta geti verið rétt, hef í raun upplifað slíkt áður á annan hátt. En það að fordómar samfélagsins komi öflugt og sýnilega fram er jákvætt á þann hátt að þá skapast umræða sem hægt er að takast á við - og útrýma hluta af brengluðum hugmyndum

Fatlað fólk í auglýsingum myndu t.d. einnig verða eðlileika fyrir börn nútímans sem hefur mjög öflugt forvarnargildi gegn fordómum

Gangi þér allt í haginn!

Freyja Haraldsdóttir, 5.2.2009 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Freyja Haraldsdóttir
Freyja Haraldsdóttir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 1015

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband