Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Strákurinn í röndóttu náttfötunum

Það er nánast ótrúlegt að ég skuli stoppa við og hafa þörf fyrir að skrifa hér nokkrar línur miðað við skrifleiðan sem hefur ,,hrjáð" mig undanfarið. Ég var að koma af myndinni Strákurinn í röndóttu náttfötunum. www.bio.is is segir um hana:

Verðlaunamyndin The Boy in the Striped Pajamas gerist á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og segir frá Bruno, átta ára gömlum þýskum dreng, sem lifir áhyggjulitlu lífi í Berlin í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar. Faðir hans (David Thewlis) er háttsettur foringi í röðum nasista, og breytist líf Bruno töluvert þegar fjölskyldan þarf að flytja sig um set þegar faðirinn fær nýja stöðu sem yfirmaður í útrýmingarbúðum. Húsið sem þau búa í er rétt fyrir utan fangabúðirnar og fær Bruno ekki að vita um raunverulegt eðli vinnunnar sem faðir hans sinnir. Í augum hans eru fangabúðirnar einfaldlega skrýtinn bóndabær þar sem allir íbúarnir ganga um í röndóttum náttfötum. Brátt myndast vinátta milli Bruno og drengs sem býr innan girðingarinnar og fara þeir að hittast reglulega við mörk fangabúðanna.

Ég hef lesið nokkrar bækur og séð töluvert margar bíómyndir um útrýmingabúðir nasista. Þær hafa flestar haft mikil áhrif á mig og setið fast eftir í huganum. Ég las bókina um strákinn í röndóttu náttfötunum um jólin og það var eitthvað annað við hana - ólíkt því sem ég hef upplifað áður. Ég get í raun ekki sagt að öllu leiti af hverju, til að eyðileggja ekki bókina/myndina fyrir þeim sem ekki hafa fengið að upplifa hana. Þó gerði það bókina að mínu mati svo grípandi/nýstandi að hún er sögð út frá sjónarhóli 8 ára gamals drengs sem býr hinum megin við girðingu - þeim megin sem enginn þarf að ganga í röndóttum náttfötum.

Bruno er settur í þá stöðu að eiga að virða pabba sinn - það gerir maður bara. Um leið hittir hann strákinn í röndóttu náttfötunum sem er Gyðingur og þá kemur togsteitan. Er hægt að eiga gyðing sem vin sem tæknilega séð, ef pabbinn hefur rétt fyrir sér, á að vera hataður?

Að sjá hlutina í gegnum augu barns og upplifa þá á sama hátt og það gerir er eitthvað sem ég vildi geta gert á hverjum degi, ekki síst þegar ég starfa með þeim. Um leið og einfaldleikinn einkennir hugsun þeirra er hún ekki bundin við þann þrönga sjóndeildarhring sem við fullorðna fólkið erum snillingar í að tileinka okkur. Það er eins og þau sjái litina skýrar, heyri hljóðin hærra, upplifi af meiri innlifun og stjórnist fremur af tilfinningum sínum frekar en af fyrirfram ákveðnum æskilegum hugsunum.

Maður er alltof sjaldan minntur á þau áhrif sem við höfum á börn. Allt sem við segjum og segjum ekki og allt sem við gerum og gerum ekki getur skaðað þau eða byggt þau upp til frambúðar. Við berum óendanlega mikla ábyrgð.

Þessi mynd hafði áhrif á mig og hún mun líka hafa áhrif á þig. Bókin er betri eins og yfirleitt alltaf en myndin gerir boðskapinn ljóslifandi - svo raunverulegan að ég er enn með gæsahúð.


Höfundur

Freyja Haraldsdóttir
Freyja Haraldsdóttir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 939

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband