Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Sjálfstætt líf á lýðveldisdaginn

Framhaldsstofnfundur Samtaka um sjálfstætt líf (SSL)

 

...verður haldinn þann 17. Júní í Silfursal- Hótel Borg við Austurvöll.  Salurinn verður opinn frá kl 15-17.  Þetta er lítill og kósý salur og vonumst við til að sem flestir líti við og sæki um félagsaðild.  Samþykkt verða lög félagsins og ný stjórn verður mótuð.

 

FAN_ISLFA_

 

Hugmyndafræðin SSL snýst m.a. um að fötluð manneskja hafi stjórn á eigin þjónustu, hvernig hún er skipulögð og hönnuð eftir þörfum, getu, aðstæðum og væntingum, hvaða verk eru unnin og hver vinni þau, hvar og hvenær. Það gefur fólki kost á að vera í réttu hlutverki í fjölskyldu sinni, vinnu, skóla og samfélagi með öllum réttindum og skyldum meðtöldum.


Unglingaveikin

Í samtali við nokkrar 6/7 ára stúlkur barst unglingaveikin í tal:

Stúlka 1 alvörugefin: Er hún alvarleg, þessi veiki?

Stúlka 2: Nei, nei, maður verður bara svona geðsveifla.

Þetta er klárlega besta orðið yfir gelgjuna sem ég hef heyrt - ef ég  var eitthvað á þessum árum, þá var ég ein risastór geðsveifla.


Púsluspil lífsins

 puzzling-people-faces-human-mental-jigsaws-puzzle-thumb5527220

Það er svo skrítið hvað við tökum eðlileikanum sem við skilgreinum sjálf sem sjálfsögðum hlut. Við göngum flest að því vísu að koma heim til fjölskyldu okkar þegar við komum heim eftir góða eða erfiða dag, sofa í rúminu okkar, að hafa atvinnu eða vera í námi, fara í sturtu þegar þörf er á og eiga föt til skiptanna inn í skáp.

Þrátt fyrir að mér líki vel fjölbreytt dagsskipulag og víðtæk vinna er ég á ákveðin hátt mjög háð mínum eðlileika. Ég þarf að hafa ákveðna hugmynd um hvað er að fara að gerast á morgun, hvar ég verð og ca. með hverjum. Ég stíg oft þau feilspor að detta mikið inn í framtíðarpælingar og sekk stundum svo djúpt í þær að ég er búin að þaulskipuleggja næsta ár í huganum en ekki endilega kvöldið í kvöld, eða daginn á morgun. Það má í raun segja að öll púsl í púsluspili lífsins verði flest að vera á réttum stað eða að ég sé nokkuð með það á hreinu hvar hin eigi að vera.

Á síðustu vikum hefur virkilega reynt á þolinmæði mína gagnvart óreiðu í eðlileikanum. Ég er að flytja og þurftum við að afhenta húsið áður en við komumst inn í það nýja. Ég hef búið hjá frábærri vinkonu á meðan. Á þessari viku sem ég hef ekki ,,átt" heimili hef ég verið frekar geðfúl og pirruð. Ég veit aldrei hvar ég gisti næstu nótt, hvort ég sé búin að ,,klára" hreinu fötin mín og hvenær ég get komið mér fyrir. Ég er þó að flytja á morgun í íbúðina og í fyrsta skipti verð ég út af fyrir mig.

Fyrir nokkrum vikum hélt ég að ég yrði ekki í vinnu í sumar og kveið því mjög en í þann mund sem ég var að ná að heilaþvo mig af því að það yrði allt í lagi fékk ég dásamlega vinnu og annað mjög spennandi verkefni.

Í sumar verða talsverðar breytingar í hópi aðstoðarkvenna minna eins og gengur og gerist í lífinu og mun ég því fá inn í líf mitt nýjar aðstoðarkonur sem þurfa að aðlagast mér og ég þeim.

Allt þetta og margt fleira hefur rutt til púsluspilinu og skapað óöryggi sem ég þekki vel af lífsins leið en líkar ekkert sérlega við. Samt sem áður minnir þetta mig á hvað lífið er óstöðugt en spennandi og hvað það sem þótti sjálfsagt í gær, er það ekki endilega í dag. Öll þessi atriði hér að ofan eru í raun vandræðalega smávægileg en margir eru að glíma við mun meiri, erfiðari (og jafnvel sársaukafulla) óreiðu sem það sér ekki fyrir endan á. Í raun ætti ég að vera ánægð með þessa reynslu því hún stækkar þægindahringinn og minnir mig á að þó púsluspilin séu ekki í röð og reglu þá er ég hér - og ég stjórna því hvort ég láti það fara í taugarnar á mér eða ekki. Í raun felast allar breytingar í að sum púsl víkja eða færa sig fyrir nýjum púslum. Þessi nýju púsl og þau sem fóru á annan stað eru í raun ný tækifæri og möguleikar. Það er því í raun hrein og klár hugsanavilla að breytingar og tímabundin óreiða séu af hinu slæma - í raun er bara verið að opna nýjar dyr og fleiri glugga.


Höfundur

Freyja Haraldsdóttir
Freyja Haraldsdóttir

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 1015

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband