Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
... hvet ykkur til að skoða þetta hér.
Bloggar | Fimmtudagur, 26. febrúar 2009 (breytt kl. 21:35) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Skólinn staður til að þroskast
HVAÐ þarf til að tilheyra eigin samfélagi?
Eftir Silju Björk Huldudóttur
silja@mbl.is
HVAÐ þarf til að tilheyra eigin samfélagi?" Þessari spurningu velti Freyja Haraldsdóttir, þroskaþjálfanemi, upp í erindi sínu á ráðstefnu sem bar heitið Skóli án aðgreiningar: Erum við á réttri leið í völundarhúsinu?" sem fram fór í vikunni fyrir fullu húsi. Svarið við spurningu sinni segir Freyja vera: Það að tilheyra eigin samfélagi felur í sér að maður fái tækifæri til þess að taka þátt í skólasamfélaginu, fjölskyldulífi, tómstundum og eiga vini. Ég finn, sem fötluð manneskja, að með því að hafa gengið í almennum skóla og verið viðurkennd af umhverfi mínu finnst mér ég hafa fullan rétt til að taka þátt í samfélaginu og finnst ég tilheyra því," segir Freyja.
Að sögn Freyju eru það mannréttindi allra barna að fara í sinn heimaskóla, hvort sem þau eru fötluð með margbreytilegar þarfir eða ekki. Við megum ekki missa sjónir af þeim réttindum og fara að afsaka skólana of mikið. Vegna þess að skólunum ber að taka á móti nemendum með margbreytilegar þarfir, láta þeim líða vel og gefa þeim tækifæri til þess að læra og þroskast eins og öðrum börnum."
Freyja gerði í erindi sínu ýmsar hindranir fyrir skóla án aðgreiningar að umtalsefni. Að mínu viti er hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar ekki tekin nægilega mikið inn í kennaramenntunina í dag. Ég held að kennaranemar þurfi að fá miklu betri kynningu á þörfum nemenda með margbreytilegar þarfir sem og kynningu á þeim úrræðum sem eru í boði," segir Freyja. Bendir hún á að viðhorf bæði starfsfólks og nemenda í garð nemenda með margbreytilegar þarfir skipti sköpum. Við getum unnið mikið með viðhorfið með því t.d. að flétta lífsleikni mun betur inn í almennu námsskrána."
Niðurskurður kostar síðar
Verði það niðurstaða stjórnvalda þá mun það skapa miklu meiri vanda og meiri kostnað í framtíðinni, vegna þess að við verjum svo stórum hluta ævi okkar í skólanum. Þar erum við að þroskast og eignast vini, læra reglur samfélagsins og viðmið. Ef okkur líður ekki vel þar þá náum við ekki þeim þroska og þeirri þekkingu sem við ættum að ná. Þannig að það er ekki bara skaðlegt fyrir einstaklinginn og lífsgæði hans heldur samfélagið í heild sinni."
Bloggar | Mánudagur, 16. febrúar 2009 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er þessi vika á enda og ný að hefjast í fyrramálið - ekki það, mér finnast sunnudagar ekki eiga að vera fyrsti dagur vikunnar. Tíminn líður svo hratt að ég hef áhyggjur af því að einn daginn vakni ég með grátt hár og á leiðinni á elliheimili.
Þessi vika hefur verið góð. Á mánudaginn fór ég með upplestur í fermingafræðslu í Seltjarnarneskirkju og gekk það mjög vel. Á fimmtudaginn var svo ráðstefna um skóla án aðgreiningar sem ég bæði sótti og var með erindi á. Hún var mjög áhugaverð, passlega löng og fjölbreytt erindi voru yfir daginn sem fengu mig til að hugsa um stöðu skólamála hér á landi og hversu aðgengilegur hann er fyrir börn - margbreytileg börn. Fyrirlesararnir voru bæði fræðimenn, foreldrar, kennari og ég sem sum höfðum ólíkar skoðanir á mikilvægi þátttöku fatlaðra nemenda í almennum skólum, tilvist sérskóla og annarra sérúrræða. Ráðstefnan hrærði vel í hausnum á mér en breytti ekki skoðun minni; að ganga í almennan skóla eru mannréttindi allra nemenda og lykill að almennri samfélagsþátttöku. Ég mun linka á erindi mitt hér inn von bráðar og þá getið þið fengið dýpri innsýn í viðhorf mitt til þessa alls. Upptaka af ráðstefnunni á einnig að koma í heild sinni á netið og mun ég setja það hér inn líka.
Hægt er að fræðast meira um skóla án aðgreiningar og ráðstefnuna hér.
Eigið góða rest af helgi, það ætla ég að gera!
Bloggar | Laugardagur, 14. febrúar 2009 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mín yndislega fimm ára frænka hringdi í mig frá Danmörku í dag og sagði mér frá hinu og þessu sem drifið hefur á daga hennar frá því fjölskyldan fór aftur út eftir íslandsdvöl yfir jólin. Helstu fréttir voru að hún væri nú búin að læra að hjóla án hjálpardekkja og væri ,,ógeðslega flink" núna. Eftirfarandi samtal átti sér svo stað:
Frænka: Á næsta stelpudegi þegar ég kem til Íslands (frænku-thing), eigum við þá að fara í hjólatúr? Þú verður bara á hjólastólnum og ég á hjólinu.
Ég: já, við getum gert það.
Frænka: Ég var bara í þrjá daga að losna við hjálpardekkin - hvað varst þú marga daga að losna við þín?
Ég (sprakk úr hlátri): Ég?
Frænka (flissandi): Nei æ já.. þú ert aldrei búin að æfa þig að hjóla!
Það er algjörlega frábært hvernig hún getur verið nýbúin að sleppa orðum um skerðinguna eða gefa til kynna að hún sé meðvituð um hana, þegar hún er búin að steingleyma henni aftur.
Þessi færsla hér er annað dæmi um það.
Bloggar | Laugardagur, 7. febrúar 2009 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugarneskirkja
Var með upplestur úr Postulín í fermingafræðslu í Laugarneskirkju í dag. Snilldar hópur sem þetta var, virkar umræður, góðar spurningar og frábær hlustun !
Ég þakka kærlega fyrir mig.
Bloggar | Þriðjudagur, 3. febrúar 2009 (breytt kl. 21:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fanney aðstoðarkona mín benti mér á upptöku á YouTube um konu sem er með notendastýrða persónulega aðstoð. Um er að ræða fjóra þætti og var ég að enda við að horfa á þá. Þessi sænska heimildarmynd var gerð 1995 (frábært fyrir Svía en vandræðalegt fyrir Íslendinga) en hún fjallar um líf tveggja fatlaðra kvenna - önnur er með persónulega aðstoð og hin ekki.
Myndin gefur góða innsýn í hversu mikil lífsgæði, frelsi og tækifæri aukast við að hafa svona aðstoð en um leið hversu erfitt og niðurlægandi það getur verið að fá aðstoð frá félagsþjónustu og heimahjúkrun, einungis þegar þeim hentar að aðstoða þig.
Ég held að fáir geri sér grein fyrir möguleikum fólks með skerðingar ef það stýrir aðstoðinni sjálft, hver veitir hana, hvenær og við hvaða aðstæður. Eins og kemur fram í myndinni er þetta ekki síst spurning um viðhorfsbreytingu fatlaðs fólks. Þ.e.a.s. að við hættum að lýta á okkur sem aukahlutverk í leikverki eða sem viðfangsefni umönnunaraðila og horfum á okkur sem leikstjóra í eigin lífi.
Ég hvet ykkur til að horfa á þessa heimildarmynd. Hún dýpkar skilning, breytir viðhorfum og endurspeglar þann raunveruleika sem ég vil sjá fyrir fólkið í samfélaginu. Sá raunveruleiki er á ábyrgð okkar allra.
Hægt er að lesa meira um sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð hér: www.independentliving.org
Bloggar | Mánudagur, 2. febrúar 2009 (breytt kl. 22:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 1148
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
Tenglar
Ég skoða...
- Háskóli Íslands
- Einstök börn
- Forréttindi ehf.
- Notendastýrð persónuleg aðstoð
- Osteogenesis Imperfecta foundation
- Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum
- Sjónarhóll ráðgjafamiðstöð
- Hjallastefnan
- Dale Carnegie
- ABC hjálparstarf
- Rannsóknarstofa um skóla án aðgreiningar